SriChinmoy.org
is More about Sri Chinmoy
x

Friðarhlaupið

Friðarhlaupið (Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem er vettvangur fyrir einstaklinga til að leggja rækt við drauminn um frið. Um allan heim hafa ungir sem aldnir tekið logandi friðarkyndilinn í hönd og stigið skref í þágu friðar. Friðarhlaupið sameinar fólk af ólíku þjóðerni og menningu í þeirri hugsjón að hver og einn getur lagt sitt af mörkum fyrir frið.

Á árinu 1987 var hlaupið með logandi friðarkyndil í fyrsta sinn í 40 löndum. Síðan þá hafa milljónir í meira en 150 löndum tekið þátt og reglulega eru hlaupin samfelld hlaup sem tengja saman þjóðir og heimsálfur. Ísland hefur tekið þátt frá upphafi. Tíu sinnum hefur verið hlaupið hringinn í kringum landið, fyrst árið 1987, auk annarra viðburða og hlaupaleiða á hverju ári.

Friðarhlaupari á Ísland

Sri Chinmoy og hugsjónir friðarhlaupsins

Á æviskeiði sínu var Sri Chinmoy þekktur fyrir að hafa átt frumkvæði að ölmörgum viðburðum og verkefnum sem sameinuðu fólk úr ólíkum áttum. Í gegnum skrif sín, friðarhugleiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum og yfir 800 friðartónleika, stuðlaði hann að framgangi friðar, einingar, sáttar og samlyndis í heiminum.

Sri Chinmoy stofnaði Friðarhlaupið til að allir gætu tjáð óskir sínar um frið á áþreifanlegan og áhrifaríkan hátt. Sjálfboðaliðar skipuleggja Friðarhlaupið og lið hlaupara víðs vegar að úr heiminum fylgir kyndlinum hvert sem hlaupið er. Þannig sameinar Friðarhlaupið fólk úr ólíkum menningarheimum.

Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað, heldur er tilgangur hlaupsins einfaldlega sá að auka meðvitund um að friður hefst í hjarta hvers og eins.
Allir geta tekið þátt í Friðarhlaupinu en ávallt er lögð áhersla á þátttöku barna og ungmenna. Í þeim anda hefur Friðarhlaupið m.a. heimsótt þúsundir skóla um allan heim.

Draumurinn um frið...

...á sér jafn langa sögu og mannkynið. Margir hafa unnið þakkarvert starf í þágu samfélagsins og varðað þannig leiðina að betri heimi. Friðarhlaupið hefur hitt ölmarga þessara einstaklinga, sem hafa tekið höndum saman með hlaupinu og stigið skref í þágu friðar. Í kjölfarið hafa myndast vináttubönd og ófáir þessara einstaklinga taka reglulega þátt í Friðarhlaupinu og styðja það með ráðum og dáð.

Friðarhlaupið á Íslandi

Ísland hefur tekið þátt í Friðarhlaupinu frá upphafi og þúsundir landsmanna hafa stigið skref í þágu friðar. Friðarhlaupið hefur heimsótt nær öll þorp og bæi á landinu, auk þess sem hlaupið hefur verið yfir eyðisanda, fjöll og firnindi og jafnvel upp á jökla.

Íþrótta- og ungmennafélög allstaðar að af landinu hafa tekið þátt í Friðarhlaupinu og undanfarin ár hefur Friðarhlaupið lagt ríka áherslu á skólaheimsóknir um allt land.
Sri Chinmoy leit á Ísland sem heimili friðar. Í ræðu sem hann hélt í móttöku borgarstjóra í Höfða árið 2000 sagði hann m.a.:

„Þar sem ég sé frið, þar sem ég finn frið, þar finnst mér ég eiga heima. Þess vegna er Ísland heimili hjarta míns.”

Sri Chinmoy

Guðni Th. Jóhannesson forseti tekur þátt í Friðarhlaupinu 2016.

Allt frá því að Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, borgarstjóri, settu fyrsta Friðarhlaupið þann 12. júní 1987, hafa íslenskir ráðamenn tekið Friðarhlaupinu opnum örmum og hafa alþingismenn, borgarstjórar, ráðherrar og forsetar sameinast um friðarkyndilinn og stigið skref í þágu friðar.

Forystumenn allra stjórnmála okka halda saman á friðarkyndlinum í lokaathöfn fyrsta friðarhlaupsins á Íslandi 1987.